Innskráning í Karellen
news

Nýtt skólaár í Öskju

05. 09. 2018

Nú erum við í Öskju að hefja okkar tíunda starfsár og það er mikil tilhlökkun fyrir komandi skólaári. Skólinn er afar vel mannaður af starfsfólki með fjölbreytta menntun og bakgrunn og fyrir það erum við þakklát.

Nú er agalotan komin vel af stað en sú lota er fyrsta lota ársins í kynjanámskrá Hjallastefnunnar. Lotulyklar lotunnar eru; virðing, hegðun, kurteisi og framkoma. Í þessari lotu eru R- reglurnar þrjár í hávegum hafðar, röð, regla og rútína. R-in þrjú endurspeglast í dagskipulaginu okkar, hópaskiptingunni og efniviðnum svo eitthvað sé nefnt. Við æfum okkur í almennri kurteisi svo sem að heilsast, kveðjast, bjóða góðan daginn, segja “já takk” og “nei takk” ásamt því að ganga í fallegri röð og æfa okkur í umgengni við okkur sjálf, fólkið í kringum okkur og umhverfið.

Löngum er haft á orði að agalotan sé mikilvægasta lotan í þeim skilningi að hún er nauðsynlegur undanfari alls annars í námskránni okkar og jafnvel í öllu skólastarfinu. Börnin þurfa að læra á umhverfi sitt, helstu hegðunarreglur og læra góðan samskiptamáta við hin börnin til þess að starf vetrarins geti verið friðsælt, árangursríkt og ánægjulegt.

© 2016 - Karellen