Innskráning í Karellen
news

Flippaður hópatími

28. 09. 2020

Stúlkurnar á Græna kjarna æfðu sig heldur betur í því að fara út fyrir rammann nú á dögunum en kennararnir buðu upp á ofur-ofur-flippaðan hópatíma þar sem hópatíminn var val og valsvæðin voru á rugluðum stöðum. Útisvæðið var til dæmis inni í forstofunni og stúlkunum bauðst að leika sér með sand, fötur og skóflur inni, sullkrókur var inni á baði þar sem í boði var að sulla í vaskinum, leirkrókur var inni í skáp og inní leikstofu var hoppukrókur þar sem þær æfðu kraftinn sinn og hoppuðu með látum niður af borði á stóra dýnu svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndin var að æfa stúlkurnar í því að fara út fyrir kassann, brjóta aðeins upp reglurnar og gera hlutina á óhefðbundinn hátt. Þetta er hluti af uppbótarvinnu sem við vinnum hér með stúlkunum okkar því samfélagið á það til að senda stúlkum þau skilaboð að þær eigi ávallt að vera stilltar og prúðar og gera allt ,,rétt“. Hér viljum við miklu heldur að þær geri hlutina eftir sínu skapandi höfði, af krafti og gleði.


© 2016 - Karellen